Erlent

Frakkar saka Rússa um geimnjósnir

Kjartan Kjartansson skrifar
Evrópskum gervitunglum er yfirleitt skotið á loft með Ariane-eldflaugum frá Frönsku Gíönu.
Evrópskum gervitunglum er yfirleitt skotið á loft með Ariane-eldflaugum frá Frönsku Gíönu. Vísir/EPA
Varnarmálaráðherra Frakklands hefur sakað Rússa um að hafa gert tilraun til geimnjósna í fyrra. Hann segir að Frakkar verði að bregðast við tilraunum stórvelda með fjandsamlega geimtækni.

Rússneskt njósnagervitungl nálgaðist gervitungl sem franski og ítalski herinn nota til þess að skiptast á háleynilegum upplýsingum og reyndi að fylgjast með fjarskiptum þess í fyrra. Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands, greindi frá atvikinu í ræðu þar sem hún lýsti geimstefnu ríkisstjórnarinnar fyrir næstu árin. Frönsk yfirvöld hafi gripið til aðgerða til þess að trygga öryggi fjarskipta gervitunglsins. Rússneska gervitunglið hafi verið af gerðinni Lútsj-Ólymp.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að bandarísk stjórnvöld hafi greint frá því árið 2015 að Lútsj-gervitungl hafi nálgast tvo njósnahnetti þeirra. Þau hafi gert athugasemd við ferðir rússneska gervitunglsins við rússnesk yfirvöld.

Parly segir að Frakkar fylgist ennþá grant með Lútsj-gervitunglinu. Eftirlitið hafi leitt í ljós að tunglið hafi verið á mikilli hreyfingu næstu mánuðina á eftir og að það hafi nálgast aðra gervihnetti.

„Að reyna að hlera nágranna þína er ekki bara óvinalegt heldur eru það njósnir,“ sagði Parly.

Frönsk stjórnvöld vinna nú að geimvörnum sínum og sagði Parly að þau þyrftu að bregðast við nýrri og herskárri geimtækni sem stórveldin væru með í þróun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×