Fótbolti

Ætlar að nýta tækifærið eftir að fá sannfærandi símtal

Tómas Þór Þórðarson í St. Gallen skrifar
Elmar fagnar í landsleik gegn Tyrkjum.
Elmar fagnar í landsleik gegn Tyrkjum. vísir/andri marinó
Theodór Elmar Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, er kominn aftur í landsliðshópinn eftir að vera skilinn eftir þegar að strákarnir okkar fóru á HM 2018 í Rússlandi í sumar.

Elmar spilaði frábærlega á EM 2016 í Frakklandi og í fyrstu leikjunum eftir Evrópumótið en var svo settur á ís hjá Heimi Hallgrímssyni og missti af tækifærinu að komast með á HM.

Hann var ekki valinn í fyrsta hóp Erik Hamrén en var svo kallaður inn á lokametrunum vegna meiðsla. Elmar kveðst spenntur fyrir þessu tækifæri þó honum finnist leiðinlegt að svona marga góða menn vanti.

Tækifæri sem hann ætlar að nýta

„Það er svolítið leiðinlegt hvernig ég fékk tækifærið en maður þarf alltaf að vera tilbúinn þegar svona tækifæri gefst. Það hefði væntanlega ekki komið ef þessi óheppilegu meiðsli hefðu ekki komið upp. Nú eru undir mér komið að nýta þetta,“ segir Theodór Elmar.

„Þetta er óheppilegt fyrir þá sem að lenda í meiðslunum en að sama skapi kannski dyr sem að opnast fyrir mig. Ég þarf að vera tilbúinn og ég er búinn að sanna mig vel á æfingum. Nú er að sjá hvort það sé nóg.“

„Ég er mjög gíraður og mjög mótiveraður. Það er frábær heiður að fá að spila fyrir landið sitt. Ef að maður fær kallið þarf maður að gera það besta úr því,“ segir Elmar.

Símtal frá Frey

Erik Hamrén stýrir liðinu í fyrsta sinn á morgun en Elmar segist hafa notið æfingavikunnar. Hann fékk símtal frá aðstoðarþjálfaranum Frey Alexanderssyni sem fékk hann til að mæta til leiks.

„Það sem gerði það að verkum að ég vildi koma var gott símtal við Frey. Hann hvatti mig enn frekar í þetta. Fyrstu dagarnir með Erik hafa verið mjög jákvæðir. Hann virkar mjög ástríðufullur sem gerir þetta skemmtilegt. Það er skemmtilegt að koma inn í eitthvað nýtt,“ segir Elmar.

„Þeir fara samt varlega í það að gera of stórar breytingar strax. Þetta eru keppnisleikir og því ekki sniðugt að gera alltof miklar breytingar þegar að svona lítill tími gefst. Annars er allt jákvætt hingað til,“ segir Theodór Elmar Bjarnason.

Viðtalið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×