Innlent

Segir heilbrigðiskerfið allt of brotakennt

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra visir/vilhelm
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir heilbrigðiskerfið hér á landi allt of brotakennt. Ráðherra segir að ekki sé skortur á sérfræðilæknum en heildarsýn vanti. Hún segir ástandið í íslenska heilbrigðiskerfinu hvergi nærri nógu gott þó hér sé nægt úrval af fagfólki.

„Staðan er þannig núna að kerfið er allt of brotakennt og það eru allt of margir sem þurfa að bíða eftir sumri tegund þjónustu á meðan offramboð er á annarri tegund þjónustu. Það er þetta samtal sem við erum í núna og þurfum að eiga. Ástandið í heilbrigðiskerfinu er hvergi nærri nógu gott þó það sé í grunninn mjög vel nestað af góðu fagfólki og við vitum það sem í því lendum að við fáum góða grunnheilbrigðisþjónustu á Íslandi,“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Þá segir hún að ekki sé skortur á sérfræðilæknum á Íslandi en heildarsýn skorti í kerfinu.

„Ísland býr yfir fjölda sérfræðilækna og við búum ekki yfir skorti á sérfræðilæknum en það sem við búum við hér er brotakennt kerfi þar sem skortir heildarsýn. Það er það sem ég er að vinna við að koma í kring. Bæði í samstarfi við lækna og aðra sérfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk en líka við opinberu heilbrigðisstofnanirnar því grunnurinn hlýtur að vera sterkt opinbert heilbrigðiskerfi og síðan samspil við aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar sem veitt er af öðrum aðilum. Ég held að það séu allir sammála um það að kerfið nákvæmlega eins og það er núna er ekki gott. En ég vil trúa því að sérfræðilæknar eins og annað heilbrigðisstarfsólk sé sammála mér um það að við viljum heildstæðari, betri og nútímalegri heilbrigðisþjónustu fyrir alla þjóðina,“ segir Svandís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×