Vigdís vill fá opinbera afsökunarbeiðni

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, fór fram á það á fundi borgarráðs í dag að borgarritari og skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara biðji hana opinberlega afsökunar.
Tillaga þess efnis var lögð fram af Vigdísi á fundi borgarráðs í dag en þar fór hún frá hún yrði opinberlega beðin afsökunar á „aðdróttunum og röngum alvarlegum ásökunum sem birtust í fjölmiðlum“ eftir dóm í máli fjármálastjóra Ráðhússins gegn Reykjavíkurborg.
Skrifstofustjórinn sendi forsætisnefnd borgarinnar bréf fyrr í mánuðinum þar sem hún óskaði eftir því að nefndin tæki til skoðunar hvort kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar hafi brotið siðarreglur sem þeim eru settar, auk ákvæða um skyldur þeirra og réttindi, í umræðu um að undirmaður skrifstofustjórans hefði orðið fyrir einelti af hennar hálfu.
Þá sendi Stefán Eiríksson borgarriti Vigdísi tölvupóst þann 10. ágúst þess efnis að hún hafi brotið trúnað er hún hafi á Facebook fjallað um umræðu sem fór fram á fundi borgarráðs 31. júlí.
Tillaga Vigdísar var sem áður segir lögð fram á fundi borgarráðs í dag en afgreiðslu hennar var frestað.
Tengdar fréttir

Ásakanir ganga á víxl í ráðhúsi
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, birti í gærkvöld tölvuskeyti sem vísað var til í bókun sem hún, ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins, lagði fram á fundi borgarráðs í gær.

Vigdís hyggst leggja fram nýjar upplýsingar í eineltismáli
Vigdís Haukdsóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, boðar nýjar upplýsingar í máli skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar, Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, sem sökuð er um að hafa lagt undirmann sinn í einelti. Helga svaraði þeim ásökunum í bréfi til forsætisnefndar Reykjavíkurborgar í dag.