Erlent

Trump stöðvar launahækkanir opinberra starfsmanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að stöðva launahækkanir opinberra starfsmanna sem áttu að taka gildi í janúar. Hann sagði það gert til að draga úr fjárlagahalla. Flestir opinberir starfsmenn áttu von á 2,1 prósent launahækkun í janúar.

Aðgerðir Trump eiga að spara ríkinu 25 milljarða dala.

Trump sagði að ríkið yrði að vera rekið á sjálfbærum grundvelli og það hefði ekki efni á slíkum hækkunum. Í fyrra skrifaði forsetinn undir skattabreytingar sem áætlað er að muni kosta ríkið 1,5 billjón dala (1.500.000.000.000)á næstu tíu árum. Fyrirtæki og ríkustu aðilar Bandaríkjanna hagnast mest á breytingunum. Þá eru aðgerðir hans einnig ekki í samræmi við stöðugar yfirlýsingar hans um að efnahagur Bandaríkjanna hafi aldrei verið í betra ástandi en nú.

Þá sagði Trump að opinberir starfsmenn kostuðu mikið og kallaði eftir því að laun þeirra yrðu tengd frammistöðu í starfi.



Demókrataflokkurinn gagnrýndi aðgerðir Trump með því að vísa í skattabreytingar hans.

„Trump hefur enn einu sinni slegið hinn bandaríska verkamann utanundir,“ sagði Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins.

Þingmaðurinn Gerry Connolly sagði Trump sjálfan hafa leitt til mikil fjárlagahalla og nú ætlaði hann að laga hann á kostnað opinberra starfsmanna.

Í stað upprunalegu hækkunarinnar íhuga þingmenn nú að veita opinberum starfsmönnum 1,9 prósent launahækkun. Verkalýðsfélög opinberra starfsmanna hafa kallað eftir þeim aðgerðum og segja launaþróun þeirra ekki hafa haldið í við verðbólgu á undanförnum áratug. Þeir séu í raun að meðaltali að fá um fimm prósent lægri laun en árið 2011.

Áætlað er að hallir ríkisrekstursins verði rúm billjón dala á næsta ári og næstu þrjú ár þar á eftir. Það hefur aðeins einu sinni gerst áður og var það í kjölfar hrunsins 2008.


Tengdar fréttir

Trump stefnir á skattabreytingar

„Ég er tilbúinn til að vinna með þinginu til að koma þessu í verk og ég vil ekki að þingið valdi mér vonbrigðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×