Erlent

Íranar halda áfram að uppfylla kjarnorkusamninginn

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá höfuðstöðvum Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar í Vín.
Frá höfuðstöðvum Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar í Vín. Vísir/EPA
Alþjóðakjarnorkustofnunin segir að Íranar haldi áfram að uppfylla skilyrði kjarnorkusamnings þeirra við heimsveldin þrátt fyrir að Bandaríkin hafi dregið sig út úr honum. Eftirlitsmenn hafi fengið aðgang að öllum þeim stöðum sem þeir þurftu að rannsaka.

Í ársfjórðungsskýrslu stofnunarinnar kemur fram að Íranar hafi haldið sig innan takmarkana á auðgun úrans og geymslu á efnum sem hægt væri að nota til að framleiða kjarnavopn sem kveðið er á um í kjarnorkusamninginum frá árinu 2015.

Bandaríkin drógu sig einhliða út úr samningnum maí að skipan Donalds Trump forseta. Þjóðverjar, Bretar, Frakkar, Rússar og Kínverjar hafa hins vegar reynt að bjarga samningnum.

Kjarnorkusamningurinn þótti sögulegur þegar hann var undirritaður árið 2015. Með honum féllust írönsk stjórnvöld á að takmarka kjarnorkuþróun sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sem höfðu verið dragbítur á efnahagi landsins.

Bandarísk stjórnvöld hafa hins vegar aftur lagt refsiaðgerðir á Íran sem eru þegar byrjaðar að sliga efnahaginn. Íranski gjaldmiðillinn hefur hrunið í verði að undanförnu, að sögn AP-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Refsiaðgerðir gegn Íran taka gildi í nótt

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann hyggst fylgja eftir refsiaðgerðum gegn Íran, eftir að Bandaríkin drógu sig úr alþjóðlegu kjarnorkusamkomulagi í vor sem undirritað var árið 2015 en það var í stjórnartíð Baracks Obama.

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum

Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt.

Forseti Íran vill bjarga samkomulaginu

Rouhani ræddi við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, fyrr í dag og sagðist hann vilja að þau Evrópuríki sem koma að samkomulaginu tryggðu Íran aðgang að bankaþjónustu og tryggðu að Íran gæti selt olíu áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×