Enski boltinn

Mourinho: Ég yrði áfram einn af bestu stjórum heims þótt Man Utd vinni ekki titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho á blaðamannafundinum.
Jose Mourinho á blaðamannafundinum. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, mætti kokhraustur á blaðmannafund í dag þrátt fyrir að vera búinn að tapa tveimur leikjum í röð og vera í augum margra að berjast fyrir því að halda starfinu sínu á Old Trafford.

Næsti leikur er á móti Burnley á sunnudaginn og þar má Mourinho alls ekki tapa þriðja leiknum í röð.

Tvö töp í þremur fyrstu leikjunum er versta byrjunin hjá Manchester United síðan 1992-93 tímabilið. Mourinho hefur aldrei tapað stærra á heimavelli en í 3-0 tapinu á móti Tottenham á mánudagskvöldið.





Jose Mourinho heldur áfram að tala um sína fornu frægð á blaðamannfundum og sagðist núna vera eini stjórinn sem hefur unnið titilinn á Ítalíu, Spáni og í Englandi.  „Ég hef unnið átta titla og þá er ég að tala um alvöru titla,“ sagði Jose Mourinho meðal annars.

Mourinho hélt því líka fram að síðasta tímabil, þar sem Manchester United náði öðru sætinu en var engu að síður langt á eftir meisturum Manchester City, hafi verið eitt af hans mestu afrekum á þjálfaraferlinum.

„Ég er ekki bara knattspyrnustjórinn hjá einu besta félagi í heimi heldur er ég sjálfur líka einn af bestu stjórum heims,“ sagði Jose Mourinho og þegar hann var spurður af því hvort hann yrði áfram einn af bestu stjórum heims ef hann ynni ekki titilinn með Manchester United svaraði Portúgalinn.

„Auðvitað. Hefur þú einhvern tímann lesið efni eftir heimspekinginn Hegel? Sannleikurinn er í heildinni og í heildinni finnur þú alltaf sannleikinn,“ sagði Jose Mourinho og hélt áfram:.





„Myndir þú spyrja þessarar sömu spurningar ef þú værir fyrir framan stjórann sem endaði í þriðja sæti á síðasta tímabili eða þá fyrir framan stjórana sem enduðu í fjórða eða fimmta sæti,“ svaraði Jose Mourinho með annarri spurningu.

Jose Mourinho hélt síðan áfram að tala meira um fyrri árangur og gamla titla en slæma byrjun Manchester United liðsins á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×