Erlent

Mótmælti aðgerðarleysi lögreglu með því að kveikja í sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Nauðganir þykja einkar tíðar í Indlandi.
Nauðganir þykja einkar tíðar í Indlandi. Vísir/EPA
Indversk kona er dáin eftir að hún kveikti í sér til að mótmæla aðgerðarleysi lögreglu í Shahjahanpur eftir að henni var nauðgað. Konan dó í gær, um sólarhring eftir að hún kveikti í sér. Yfirmaður lögreglunnar á svæðinu segir að maðurinn sem hún sakaði um nauðgun hafi verið handtekinn og lögregluþjónum hafi verið vikið úr starfi, tímabundið, vegna málsins.



Konan, sem var 28 ára gömul, og eiginmaður hennar fóru til lögreglunnar þann 23. ágúst til að leggja fram kæru vegna nauðgunar. Maðurinn segir lögregluþjóna hafa neitað að opna rannsókn og þess í stað hafi þeir farið fram á að þau myndu ræða við hinn meinta nauðgara, sem er læknir og úr sama þorpi og þau.

Hann segir eiginkonu sína hafa verið eina heima ásamt þriggja ára syni þeirra þegar nauðgunin átti sér stað.

Lögreglan segir að þeir hafi í höndum bréf, sem konan og fjölskylda hennar hafi skrifað undir, þar sem því er haldið fram að þau hafi komist að samkomulagi við nauðgarann. Nú er til rannsóknar hvort þau hafi verið þvinguð til að skrifa undir bréfið af lækninum og þremur lögregluþjónum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×