Enski boltinn

Þegar Liverpool mætti Crystal Palace síðast á mánudagskvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard reynir að hughreysta Luis Suarez í leikslok.
Steven Gerrard reynir að hughreysta Luis Suarez í leikslok. Vísir/Getty
Lokaleikur annarrar umferðar ensku úrvalsdeildarinnar er í kvöld þegar Crystal Palace tekur á móti Liverpool á Selhurst Park í London. Eitt súrasta kvöldið í sögu Liverpool var þegar liðið mætti Palace síðast á mánudegi.

Mikil eftirvænting er hjá öllum í Liverpool eftir frábæran sigur í fyrstu umferð, vel heppnað undirbúningstímabil og heimsklassa frammistöðu á leikmannamarkaðnum í sumar.

Liverpool var á toppnum eftir fyrstu umferð þar sem liðið vann 4-0 heimasigur á West Ham. Liðið þarf hinsvegar stórsigur í kvöld ætli það að ná toppsætinu af City sem er með 6 stig og markatöluna 8-1 eftir tvo leiki.

Mánudagskvöld á Selhurst Park ætti hins vegar að rifja upp ansi súrar minningar fyrir stuðningsmenn Liverpool og þann eina leikmenn sem var með liðinu fyrir rúmum fjórum árum.





Liverpool missti af enska meistaratitlinum á lokasprettinum voruð 2014 en tap á heimavelli á móti Chelsea og jafntefli á útivelli á móti Crystal Palace kostuðu Liverpool titilinn sem endaði hjá Manchester City.

Leikurinn á móti Crystal Palace var aftur á móti sérstaklega súr af því að Liverpool-liðið var komið í 3-0 þegar klukkutími var liðinn.





Palace-menn skoruðu hinsvegar þrjú mörk á síðustu ellefu mínútum leiksins og tryggðu sér stig. Þessi tvö stig sem Liverpool tapaði voru einmitt stigin tvö sem skildu af tvö efstu liðin.

Manchester City var reyndar með mun betri markatölu en Liverpool og því hefði þurft meira til. Það hefði aftur á móti verið mun meiri pressa á City-liðinu að klára sinn leik í lokaumferðinni sex dögum síðar.

Damien Delaney skoraði fyrsta markið, hans eina mark á tímabilunum 2013-14 og 2014-15, áður en varamaðurinn Dwight Gayle skoraði tvisvar með sjö mínútna millibili.





Það er bara einn leikmaður eftir hjá Liverpool sem tók þátt í þessum leik en það er Daniel Sturridge sem spilaði fyrstu 86 mínútur leiksins. Allir aðrir hafa annaðhvort verið seldir, komast ekki í liðið eða eru búnir að leggja knattspynuskóna sína á hilluna.

Joe Allen, sjálfsmark frá Damien Delaney og mark frá Luis Suarez höfðu komið Liverpool í 3-0 í leiknum. Luis Suarez grét í leikslok eins og frægt var. Hann átti aðeins eftir að spila einn leik til viðbótar fyrir Liverpool og var farinn til Barcelona nokkrum mánuðum síðar.





Hér fyrir neðan má sjá myndband frá Crystal Palace um þennan ótrúlega leik í maímánuði 2014. Við vörum viðkvæma stuðningsmenn Liverpool við þessum myndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×