Innlent

Þakklátur Bubbi segir rifna slagæð vera ástæðu fjarverunnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bubbi Morthens hefur verið lagður inn á spítala og spilar því ekki í Hljómskálagarðinum í kvöld.
Bubbi Morthens hefur verið lagður inn á spítala og spilar því ekki í Hljómskálagarðinum í kvöld. Fréttablaðið/Anton Brink

Rifin slagæð var ástæða þess að tónlistarmaðurinn ástsæli Bubbi Morthens gat ekki komið fram með Dimmu á tónleikum Bylgjunnar í Hljómskálagarði á Menningarnótt. Hann segist vera afar þakklátur starfsfólki Landspítalans.

Bubbi sendi frá sér yfirlýsingu á laugardaginn þar sem sagðist hafa verið lagður inn á Landspítalann vegna kvilla í nefi og því gæti hann ekki ekki komið fram á tónleikunum. Í gær sagðist hann vera heppinn að vera á lífi en í færslu á Facebook-síðu Bubba í dag fer hann nánar yfir hvað hrjáði hann.

„Á fimmtudagsmorgun var ég að reima skóna þegar blóð tók að leka úr nösunum og niður í kok og maga en þetta þróaðist í eitthvað meira en eðlilegt gæti talist,“ skrifar Bubbi.

Var hann lagður inn á Landspítalann þar sem hann var sendur í aðgerð en í ljós kom að slagæð hafði rifnað.

„Allt gekk vel þessa 4 daga sem ég dvaldi á landspítalanum og sýndi mér enn og aftur hversu ótrúlega gott starfsfólk við höfum, fullt af kærleika og umhyggju þrátt fyrir fjársvelti og oft á tíðum ómanneskjulegt álag,“ skrifar Bubbi.

Þakkar hann starfsfólki Landspítalans fyrir umhyggjuna og segir hann að læknar og sérfræðingar spítalans séu í fremstu röð en aðgerðin fól í sér að Bubbi var þræddur í gegnum æð í náranum upp í kok og nef þar sem blæðingin var stöðvuð.

„Ég þarf að hvíla mig næstu daga og síðan tekur hið venjubundna líf við. Ég er ótrúlega þakklátur öllum þeim sem hafa sent mér kveðjur og synir mér að nóg er til af ást og kærleika,“ skrifar Bubbi.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.