Innlent

Ökumenn geta leitað réttar síns vegna skemmda á Suðurlandsvegi

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Nokkrir hafa fyllt út tjónaskýrslu og aðrir hringt í Vegagerðina vegna tjóns á bílum sem rekja má til ónýtra vegkafla austan við Vík í Mýrdal á Suðurlandsvegi við Landvegamót.

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá því að nokkra kílómetra vegakaflar fyrir austan Vík í Mýrdal og á Suðurlandsvegi við Landvegamót eru ónýtir eftir að slitlag var sett á þá um helgina. Málið er til rannsóknar hjá Vegagerðinni en í samtali við Vísi í dag sagði framkvæmdastjóri félags íslenskra bifreiðaeigenda ákvæði vera í vegalögum þar sem segir að ef um vangá vegahaldara er að ræða þá geti það skapað bótaábyrgð. Ökumenn sem telji sig hafa orðið fyrir tjóni geti því átt rétt á bótakröfu á Vegagerðina.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir sex manns hafa fyllt út tjónaskýrslur í dag og nokkur símtöl hafi komið til þeirra. Hann segir málið enn í rannsókn en tjónið er metið á 15 til 20 milljónir króna. „Aftur á móti vitum við ekki ennþá hver ber ábyrgð á þessu. Við þurfum að komast að því hvað gerðist og hver ber ábyrgðina,“ segir hann um málið.

Mikið grjótkast var á þessum vegaköflum og hefur umferðarhraði verið tekinn niður. Grjótkastið getur orðið til þess að skemmdir verða á ökutækjum. En hvað með þá sem hafa orðið fyrir tjóni, hvað eiga þeir að gera? „Á heimasíðunni hjá okkur er hægt að fylla út tjónsskýrslu. Það er ráðlagt að gera það, þó að það komi síðan í ljós að vegagerðin beri ekki ábyrgðina þá er sniðugt að byrja þar,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×