Erlent

Olíuiðnaðurinn vill almannafé til að verja sig fyrir áhrifum loftslagsbreytinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Flóðgátt og sjóvarnargarður nærri olíuhreinsistöð í Texas. Olíuiðnaðurinn vill að alríkisstjórnin hjálpi að verja hann fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga.
Flóðgátt og sjóvarnargarður nærri olíuhreinsistöð í Texas. Olíuiðnaðurinn vill að alríkisstjórnin hjálpi að verja hann fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Vísir/AP

Líklegt er að almannafé verði notað til að fjármagna á annað hundruð kílómetra sjóvarnargarða og annarra flóðavarna með fram ströndum Texas í Bandaríkjunum til þess að verjast auknum ágangi sjávar vegna loftslagsbreytinga. Varnargarðarnir eiga að verja olíuvinnslu- og hreinsistöðvar.

Hækkandi sjávarstaða og stærri sjávarflóð eru á meðal afleiðinga hnattrænnar hlýnunar. Meginorsök loftslagsbreytinga er losun manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og olíu, kolum og gasi.

Yfirvöld í Texas undirbúa nú varnir við öflugri stormum og flóðum, ekki síst eftir eyðilegginguna sem fellibylurinn Harvey olli þar í fyrra.

AP-fréttastofan segir að hluti af vörnunum sé fyrir iðnaðarsvæði suður af Houston þar sem mesti fjöldi olíuvinnslustöðva í heiminum er saman kominn. Varnargarðarnir fyrir það svæði eru taldir munu kosta að minnsta kosti 3,9 milljarða dollara. Féð muni að nær öllu leyti koma úr opinberum sjóðum.

Þingmenn Repúblikanaflokksins frá Texas hafa öllu jafna lagst gegn auknum opinberum útgjöldum en þeir styðja framkvæmdirnar nú. Þeir hafa jafnframt hafnað niðurstöðum loftslagsvísinda. Þetta gagnrýna náttúruverndarsamtök sem saka olíu- og gasiðnaðinn að fá „frítt far“ hjá skattgreiðendum.

Embættismenn ríkisins halda því hins vegar fram að það sé spurning um þjóðaröryggi að gæta öryggis olíuiðnaðarins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.