Erlent

Hófleg áfengisneysla ekki einu sinni af hinu góða

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Áfengisneysla í hófi er ekki jafn holl og margir vilja meina, samkvæmt rannsókninni.
Áfengisneysla í hófi er ekki jafn holl og margir vilja meina, samkvæmt rannsókninni. Vísir/Getty
Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að öll áfengisneysla sé skaðleg fólki, en áður hefur því oft verið haldið fram að hófleg drykkja áfengis geti haft bætandi áhrif á heilsuna. Rannsóknin var framkvæmd af háskólanum í Washington og er sú stærsta sinnar tegundar.

Samkvæmt rannsókninni dró áfengi 2,8 milljónir manna til dauða árið 2016 og var aðalorsök dauða og varanlegs skaða í aldursflokknum 15 til 49 ára en áfengi varð valdur að 20% dauðsfalla í þeim aldursflokki.

Í rannsókninni segir meðal annars að „núverandi drykkjuvenjur muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lýðheilsu framtíðarinnar.“ Þá sagði einnig að áfengi væri veruleg orsök heilsutaps og styttingu lífslíkna, sér í lagi hjá karlmönnum.

Rannsóknin studdist við tölur um áfengisneyslu og áhrif hennar á heilsuna frá 195 löndum á 26 ára tímabili, frá 1990 til 2016. 694 rannsóknir voru gerðar á drykkjuvenjum fólks og þá voru gerðar 592 úttektir á heilsu fólks, en þær úttektir náðu til 28 milljóna manna.

Rannsóknin sýndi einnig fram á það að áfengi er krabbameinsvaldur, þá sérstaklega hjá fólki yfir fimmtugt, en áður höfðu rannsóknir sýnt að eitt af hverjum þrettán brjóstakrabbameinstilfellum í Bretlandi væri til komið sökum áfengisneyslu. Þá sýndi rannsóknin fram á það að 27% dauðsfalla vegna krabbameins hjá konum og 18% hjá körlum, mætti rekja til áfengis.

Samkvæmt rannsókninni drekkur þriðja hver manneskja á jörðinni áfengi, eða tæplega tveir og hálfur milljarður jarðarbúa. Fjórðungur kvenna neytir áfengis og rétt tæplega 40% karla. Danir eru hvað duglegastir í drykkju en þar drekka 95,3% kvenna og 97,1% karla, meðan Pakistan hefur fæsta karlkyns áfengisneytendur, eða 0,8%. Þá drekka einungis 0,3% kvenna í Bangladesh áfengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×