Innlent

HÍ býður almenningi að sitja námskeið í þjóðhagfræði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Fréttablaðið/GVA
Hagfræðideild Háskóla Íslands hefur ákveðið að bjóða áhugasömum að að sækja sér að kostnaðarlausu háskólafyrirlestra í þjóðhagfræði handa byrjendum nú í haust.

Fyrirlesari námskeiðsins er Þorvaldur Gylfason prófessor og heldur hann fyrirlestra tvisvar í viku, á þriðjudögum og miðvikudögum kl. 11:40 til 13:10 í stofu 102 á Háskólatorgi. Fyrsti fyrirlesturinn verður haldinn þriðjudaginn 28. ágúst næstkomandi klukkan 11:40. Námskeiðinu lýkur 21. nóvember og aðstoðarkennari er Oddgeir Á. Ottesen hagfræðingur.

Í tilkynningu frá hagfræðideild Háskóla Íslands segir að Þjóðhagfræði I sé inngangsnámskeið sem krefjist ekki sérstaks undirbúnings umfram almenna þjálfun til stúdentsprófs eða samsvarandi.

Til að áhugasamir gestir geti nýtt sér kennsluna sem best verður upplýsingavefur námskeiðsins hafður opinn og aðgengilegur öllum. Þar verður hægt að nálgast námslýsingu, glærur og annað efni tengt fyrirlestrunum. Vefslóðin verður kynnt í upphafi námskeiðsins.

Þá segir einnig að markmið námskeiðsins sé að miðla innsýn í þjóðhagfræði, helstu kenningar hennar og hugtök, og veita yfirsýn yfir helstu viðfangsefni þjóðhagfræðinga og ýmis lögmál efnahagslífsins. Rækt sé lögð jöfnum höndum við fræðilegt inntak og hagnýtt gildi námsefnisins og tengsl þess við ýmis efnahagsmál sem eru ofarlega á baugi á Íslandi og úti í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×