Innlent

„Þú ert ekki að drekka til að bæta heilsuna“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ókostir við áfengisdrykkju vegur á móti öllum hugsanlegum ábata af hóflegri drykkju samkvæmt nýrri rannsókn. Næringarfræðingur segir rannsóknina marka tímamót þar sem öll heilsufarsleg áhrif áfengisneyslu hafi aldrei verið borin saman með þessum hætti.

Um er að ræða eina umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið á áhrifum áfengis á heilsufar manna og birtust niðurstöðurnar í læknaritinu The Lancet í gær. Samkvæmt henni er hófleg áfengisneysla skaðleg heilsu manna.

Einungis stutta leit þarf hins vegar til þess að finna fjölda greina og rannsókna er þykja sýna fram á heilsubætandi áhrif hóflegrar drykkju og sagt hefur verið að rauðvín í hófi geti haft góð áhrif á hjartað. Næringarfræðingur segir að í þessari rannsókn séu öll möguleg áhrif áfengisneyslu borin saman.

Hvers vegna eru skilaboðin svona misvísandi?

„Þetta er í raun og veru á vissan hátt alveg rétt. En þarna hafa verið rannsóknir sem eru að skoða eina útkomu en í nýju rannsókninni er tekið tillit til alls. Og við sjáum, að þótt að það sé smá ávinningur sem er lítill, að þá nær hann ekki að vega á móti áhættunni og þá til dæmis krabbameinsáhættu," segir Jó­hanna Eyrún Torfa­dótt­ir, næringarfræðingur og fræðslu­full­trúi hjá Krabba­meins­fé­lagi Íslands.

Hún hvetur stjórnvöld til að horfa til rannsóknarinnar við stefnumörkun.

„Ef að það væri engin áfengisdrykkja á Norðurlöndunum er talið að það væri hægt að koma í veg fyrir 83 þúsund tilvik af krabbameini."

Ætti fólk að sleppa því að drekka?

„Það er náttúrulega ákvörðun hvers og eins að drekka. En allavega að fólk viti að það er aukin hætta á krabbameinum og að þú ert ekki að drekka til að bæta heilsuna þína."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×