Innlent

Brynjar Níelsson óánægður: „Fjölmiðlamenn eru eins og hverjar aðrar klappstýrur í þessu ofstæki“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/vilhelm
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði í dag ásakanir um kynferðisofbeldi og óviðeigandi hegðun að umfjöllunarefni sínu í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag.

Í stöðuuppfærslunni segir Brynjar að nú á tíðum þyki fólki lítið mál að „saka mann og annan um hvers kyns brot eða óviðeigandi hegðun, sem áttu að vera framin fyrir árum eða áratugum síðan og með því tvistra fjölskyldum og eyðileggja líf manna.“

Í færslunni segir Brynjar jafnframt að í málum eins og þeim sem hann bendir á séu lög og reglur víðs fjarri þegar dómstóll götunnar kveði upp dóm sinn.

Þá gagnrýnir Brynjar fjölmiðla fyrir að stíga ekki niður fæti gegn þessari þróun og kallar þá meðal annars klappstýrur. Brynjar segir fjölmiðla einnig „leggja rauðan dregil fyrir þá sem koma fram með ásakanir af þessu tagi.“

Starfssystkini Brynjars á vettvangi stjórnmálanna fá einnig á baukinn í færslunni en hann sakar stjórnmálamenn, í það minnsta þá sem umhugað sé um endurkjör, að þegja um málaflokkinn. Einnig gagnrýnir Brynjar lögmannastéttina sem og háskólasamfélagið.

Brynjar endar svo færsluna á þessum orðum: „Ég ráðlegg þeim sem vilja halda starfi sínu og jafnvel huga að starfsframa að læka ekki þessa færslu.“








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×