Innlent

Norræna húsið 50 ára í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Norræna húsið hefur verið vettvangur menningarstarfsemi og miðstöð Norðurlandabúa á Íslandi í 50 ár.
Norræna húsið hefur verið vettvangur menningarstarfsemi og miðstöð Norðurlandabúa á Íslandi í 50 ár. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Norræna húsið fagnar 50 ára afmæli í dag. Í tilefni afmælisins verður almenningi boðið til veislu á morgun þar sem Grænlenskt rokk og finnskt sánabað verða meðal annars á boðstólum. Afmælishátíðin hófst með fánahyllingu í morgun og þá fór fram ráðstefna í Veröld, húsi Vigdísar í dag um norræna menningarpólitík á Íslandi síðastliðin 50 ár.

Húsið var vígt á þessum degi árið 1968 en það er hannað af finnska arkitektinum Alvari Aalto. Húsið gegnir hlutverki norrænnar menningarmiðstöðvar á Íslandi og er rekið af Norrænu ráðherranefndinni.

„Það hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir íslenska menningu og okkur sem íbúa norðurlandanna, norræna íbúa, og hefur alltaf skipað stóran sess í okkar samfélagi síðan það var vígt á þessum degi fyrir 50 árum,“ segir Ágústa Lúðvíksdóttir, bókasafnsfræðingur hjá Norræna húsinu. Á flötinni við Norræna húsið var undirbúningur í fullum gangi í dag fyrir veisluna á morgun.

„Afmælið er í dag 24. en við erum að fagna með veislu fyrir Íslendinga alla hérna á morgun, laugardaginn 25,“ segir Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir, markaðsstjóri Norræna hússins. Dagskráin hefst með morgunverði klukkan tíu í fyrramálið og verður ýmislegt um að vera allan daginn en gestum stendur meðal annars til boða að prófa finnska sánu..

„Svo eru tónleikar klukkan tvö, það eru tónleikar klukkan sjö, það er pub quiz klukkan fimm, það verður stanslaust fjör hjá okkur á morgun,“ segir Kristbjörg. Bókasafnið hefur jafnan verið kallað hjarta hússins en þar er aðeins að finna bækur á öðrum norðurlandamálum en íslensku. Þar verður einnig dagskrá á morgun.

„Ef við verðum orðin þreytt á góða veðrinu á morgun þá verður líka dagskrá inni í húsinu fyrir krakka, það eru kvikmyndasýningar í salnum og svo eru leikir og það er hægt að klæða sig upp sem Línu langsokk í barnabókasafninu þannig að það verður eiginlega bara stöðugt fjör, úti og inni og allt um kring,“ segir Ágústa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×