Innlent

Tekjujöfnuður fer vaxandi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Hagfræðingur Viðskiptaráðs segir tekjujöfnuð fara vaxandi

Í greiningu Viðskiptaráðs Íslands á tölum Hagstofunnar er bent á að síðustu tvö ár hafi atvinnutekjur, sem eru laun og aðrar starfstengdar tekjur, hækkað mest á meðal þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Sem dæmi hafi atvinnutekjur hjá þeim sem eru með hærri tekjur en 10 prósent framteljenda hækkað um 12 prósent í fyrra en á sama tíma hækkuðu atvinnutekjur um fimm prósent hjá þeim sem eru með hærri tekjur en 90 prósent framteljenda.

Þróunin er á svipaða vegu ef litið er til heildartekna, að sögn Viðskiptaráðs.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir tölur Hagstofunnar nokkuð á skjön við þá orðræðu sem oft er ráðandi í daglegri umræðu að ójöfnuður fari vaxandi. „Þótt taka beri tölunum með ákveðnum fyrirvara benda þær eindregið til þess að tekjujöfnuður sé að aukast og hafi farið vaxandi á síðustu árum,“ segir hann.

Það komi ágætlega heim og saman við miklar launahækkanir undanfarinna ára í öllum launþegahópum.

Viðskiptaráð bendir einnig á að kaupmáttaraukning síðustu ára hafi runnið í meiri mæli til eldri aldurshópa en þeirra yngri. Þannig hækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna langmest í aldurshópnum 75 ára og eldri í fyrra, eða um 14 prósent, en um sjö prósent eða minna í öðrum aldurshópum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×