Innlent

Of mikið rask og kostnaður við að leita að asbesti í skólum

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík. VÍSIR/ANTON BRINK
Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á asbesti í stofnunum borgarinnar, sérstaklega leik- og grunnskólum, var felld af fulltrúum meirihlutans á síðasta fundi borgarráðs. Við afgreiðslu málsins vísaði meirihlutinn í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að asbest væri aðeins hættulegt ef hróflað væri við því eða það rifið niður.

„Ef það á að kortleggja asbest í húsnæði í eigu borgarinnar þyrfti að ráða til þess sérfræðinga og rýma húsnæðið á meðan leit stæði yfir. Myndi þetta valda verulegu raski á starfsemi borgarinnar, miklum útgjöldum og skapa áhyggjur og ótta meðal fólks og jafnvel meiri hættu en áður,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirra Eyþórs Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur og Valgerðar Sigurðardóttur, er vísað til þess að starfsmönnum leikskólans Drafnarborgar hafi verið bannað að negla í veggi þar sem grunur leiki á að asbest sé að finna í klæðningu innanveggja.

„Þannig er nauðsynlegt að farið verði í fyrirbyggjandi aðgerðir á leikskólanum og gengið sé þar úr skugga um að ekki leynist efni sem geta valdið starfsfólki og nemendum skaða. Mikilvægt er að tryggt sé að skaðleg efni líkt og asbest sé ekki að finna í húsnæði sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ef svo er þá þarf að meta hættuna á mögulegri mengun og grípa til viðeigandi úrræða í samráði við sérfræðinga til að tryggja að hvorki börn né starfsmenn verði fyrir mengun.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×