Erlent

Tölvuleikjasamfélagið minnist fórnarlamba skotárásarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Taylor Robertson og Eli Clayton létust í árásinni í Jacksonville í gær.
Taylor Robertson og Eli Clayton létust í árásinni í Jacksonville í gær. Skjáskot/EA Sports
Mennirnir tveir sem létust í skotárásinni í Jacksonville í gær voru tölvuleikjaspilarar að atvinnu. Þeir voru andstæðingar árásarmannsins í tölvuleiknum Madden og voru báðir á þrítugsaldri.

Dagblaðið The Miami Herald nafngreindi fórnarlömbin í kjölfár árásarinnar sem gerð var á tölvuleikjamóti í afþreyingarmiðstöðinni Jackson Landing. Hinir látnu hétu Eli Clayton, 22 ára, og Taylor Robertson, 27 ára. Eins og áður segir voru þeir báðir tölvuleikjaspilarar að atvinnu og jafnframt keppendur á mótinu í gær.

Sjá einnig: 337 látist í 290 skotárásum í Bandaríkjunum það sem af er ári



Samkvæmt frétt Miami Herald var Robertson afar sigursæll spilari frá Vestur-Virginíu. Hann spilaði undir nafninu SpotMePlzzz og vann til að mynda sambærilegt Madden-mót í fyrra. Árásarmaðurinn, hinn 24 ára David Katz, vann mótið árið 2016, að því er kemur fram í frétt Reuters. Þá skilur Robertson eftir sig eiginkonu og börn.

Clayton var frá Kaliforníu og spilaði undir nafninu Trueboy. Hans er minnst með mikilli hlýju.

Lögregla í Jacksonville hefur enn ekki viljað tjá sig um ástæðu að baki árásinni. Fjölmiðlar vestanhafs hafa þó haldið því fram að Katz hafi reiðst eftir að hann tapaði í leik á mótinu og hafið skothríð. Hann framdi sjálfsvíg eftir árásina. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fannst lík hans á sama stað og lík Clayton og Robertson.

Hér að neðan má sjá myndband sem tekið er af Katz á Madden-móti. Í myndbandinu má heyra Katz lýst sem einrænum spilara sem ekki sé mættur á mótið til að eignast vini.

Samfélag tölvuleikjaspilara er harmi slegið í kjölfar árásarinnar og hafa fjölmargir spilarar vottað fjölskyldum Clayton og Robertson samúð sína.

Mikil ringulreið skapaðist þegar Katz hóf skothríð á tölvuleikjamótinu í gær en því var streymt beint á netinu. Upphaf árásarinnar náðist á myndbandi sem var dreift víða á samfélagsmiðlum í gær. Þá hefur Bandaríkjaforseta Donald Trump verið gert viðvart um árásina og er hann meðvitaður um stöðu mála, að því er fram hefur komið í svari Hvíta hússins við fyrirspurnum fjölmiðla.

Mannskæðar skotárásir hafa verið tíðar í Flórída síðustu ár. 49 létust í skotárás á skemmtistaðinn Pulse í Orlando árið 2016 og 17 létust í árásinni á Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann í Parkland í febrúar síðastliðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×