Erlent

„Undarleg lykt“ í herbergi látnu hótelgestanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
John og Susan Cooper létust á hótelinu á dögunum.
John og Susan Cooper létust á hótelinu á dögunum. facebook
Yfirvöld sem fara með rannsókn á andláti breskra hjóna í Egyptalandi í síðustu viku segja „óvenjulega lykt“ hafa fundist inni á hótelherbergi þeirra. Þetta rennir frekari stoðum undir það að eitthvað í loftræstikerfi hótelsins hafi dregið fólkið til dauða, að því er fram kemur á vef breska dagblaðsins The Guardian.

Hjónin John og Susan Cooper, sem bæði voru á sjötugsaldri, létust á hótelinu Steigenberger Aqua Magic í borginni Hurghada sem stendur við Rauðahafið. Í kjölfarið ákvað bókunarrisinn Thomas Cook að flytja alla viðskiptavini sína af hótelinu.

Ahmed Abdullah, ríkisstjóri Rauða hafs-umdæmisins í Egyptalandi, sagði á blaðamannafundi í borginni í dag að undarleg lykt hafi fundist í herbergi hjónanna. Herbergið var lokað öllum óviðkomandi eftir andlát hjónanna en sérfræðingar rannsaka nú loftræstikerfi hótelsins.  Þá telur dóttir hjónanna, Kelly Omerod, að foreldrar hennar hafi látist við innöndun á óþekktu efni.

Nokkrir gestir, sem dvöldu á hótelinu á sama tíma og Cooper-hjónin, kvörtuðu undan veikindum og ónotum í maga. Ekkert bendir þó til þess að hjónin hafi fundið fyrir slíkum einkennum. Rannsókn á andláti Johns og Susan stendur enn yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×