Erlent

Graður höfrungur olli usla í Frakklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Zafar virtist reyna að hafa mök við allt og alla. Myndin er ekki af Zafar sjálfum.
Zafar virtist reyna að hafa mök við allt og alla. Myndin er ekki af Zafar sjálfum. Vísir/Getty
Bæjarstjóri Landévennec í Frakklandi meinaði fólki í síðustu viku að synda og kafa á baðströndum við bæinn á meðan ágengur höfrungur var á svæðinu. Það var gert af ótta við að höfrungurinn graði gæti skaðað einhvern og var fólki meinað að fara nærri honum en 50 metra. Höfrungurinn, sem kallaður er Zafar, hafði verið við bæinn í nokkrar vikur. Þar elti sundmenn og kajakræðara og skemmti börnum.

Fólk varð hins vegar hrætt við hann vegna þess að Zafar virtist reyna að hafa mök við allt og alla. Hann nuddaði sér utan í báta og meðal annars þurfti að bjarga einni konu úr sjónum vegna þess að höfrungurinn kom í veg fyrir að hún kæmist í land. Þar að auki fleygði hann ungri konu upp í loftið í síðustu viku.

Óttast var að Zafar gæti skaðað fólk með sporði sínum með atlotunum.

Nú virðist þó sem að makaleitin hafi sent Zafar á aðrar slóðir og hafa íbúar bæjarins ekki séð hann í dag, samkvæmt The Local. Íbúar Landévennec geta því farið að synda aftur.



Ekki voru allir sáttir með bannið og var sett af stað undirskriftasöfnun til að reyna að fá það fellt niður. Forsvarsmaður söfnunarinnar sagði bæjarstjórann hafa látið Zafar líta út sem grimmt rándýr og sagði slys vegna höfrunga aldrei hafa átt sér stað á svæðinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×