Erlent

Gróft einelti leiddi til andláts 9 ára drengs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drengurinn var níu ára gamall.
Drengurinn var níu ára gamall. CBS
Níu ára drengur, James Myles, er sagður hafa fyrirfarið sér eftir hafa sætt grófu einelti í fjóra sólarhringa. Haft er eftir móður drengsins, sem býr í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum, að sonur hennar hafi tilkynnt henni í sumar að hann væri samkynhneigður.

Hún segir að hann hafi verið stoltur af uppgötvun sinni og að hann hefði ekki getað beðið eftir því að tilkynna bekkjarsystkinunum frá kynhneigð sinni. Hann á þó að hafa komið niðurbrotinn heim eftir fyrsta skóladaginn.

„Sonur minn sagði elstu dóttur minni að krakkarnir í skólanum hafi sagt honum að drepa sig,“ er haft eftir móður drengsins, Leia Pierce, á vef breska ríkisútvarspsins. „Mér þykir svo leitt að hann hafi ekki leitað til mín. Ég er niðurbrotin vegna þess að hann taldi þetta vera eina valmöguleikann í stöðunni.“

Skólayfirvöld í Denver hafa boðið öllum samnemendum og kennurum drengsins áfallahjálp vegna málsins. Í yfirlýsingu skólans segja stjórnendur að fráfall Myles sé mikið áfall fyrir allt nærsamfélagið. Þeir biðla jafnframt til foreldra að fylgjast vel með líðan barna sinna.

Til stendur að koma upp aðstöðu í skólanum þar sem nemendur geta óhræddir tjáð sig um tilfinningar og líðan sína. Þar að auki munu kennarar hringja í foreldra 9 og 10 ára barna til að spyrjast fyrir um líðan barnanna.

Lögreglan í Denver hefur andlát Myles til rannsóknar.

Hjálparsími Rauða Krossins, 1717, er opinn allan sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×