Erlent

Hefja aftur heræfingar í Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Jamis Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jamis Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AP
Yfirvöld Bandaríkjanna hafa ákveðið að hefja heræfingar í Suður-Kóreu að nýju. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað að hætta æfingum með herafla Suður-Kóreu á fundi hans og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í Singapúr í júní.

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti þetta í dag en hann sagði ekki hvenær æfingarnar munu hefjast að nýju. Það myndi velta á viðræðum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlanir einræðisríkisins. Eftir fund Trump og Kim sagði Trump að sameiginlegar æfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu væru stríðsleikir og gaf í skyn að Norður-Kóreu stæði ógn af þeim. Mattis vildi ekki tjá sig um þau ummæli og sagði málið í höndum erindreka ríkjanna.



Mattis fór einnig yfir það hvernig herafla Bandaríkjanna hefði gengið að aðlagast nýrri varnastefnu Bandaríkjanna sem kynnt var í janúar. Hann sagði bandaríska herinn vera öflugari en hann hafi verið fyrir ári síðan og sömuleiðis hreyfanlegri.



Sjá einnig: Snúa sér að Kína og Rússlandi



Mattis sagði heiminn vera að ganga í gegnum breytingaskeið og mikilvægt væri að herafla Bandaríkjanna væri á tánum gagnvart nýjum áskorunum.

Nefndi hann sérstaklega netárásir og átök í geimnum og sagði mikilvægt að átta sig á mikilvægi þeirra sviða hernaðar.

Þá ræddi Mattis einnig þá hagræðingu og innri skoðun sem væri að eiga sér stað innan herafla Bandaríkjanna og sagði að þegar hefði tekist að sprara minnst fjóra milljarða dala á þessu ári.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×