Erlent

Hringdi dyrabjöllum að næturlagi með ólar um úlnliðina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot af upptöku úr öryggismyndavél. Hér sjást ólarnar sem konan bar um úlnliðina greinilega.
Skjáskot af upptöku úr öryggismyndavél. Hér sjást ólarnar sem konan bar um úlnliðina greinilega. Skjáskot/FACEBOOK
Lögregla í Texas-ríki í Bandaríkjunum leitar konu sem hringdi dyrabjöllum nokkurra húsa í íbúahverfi norðan við Houston seint um nótt. Ferðir konunnar náðust á öryggismyndavél en í myndbandinu virðist hún vera með ólar um úlnliðina.

Samkvæmt frétt BBC var konan á bak og burt þegar íbúi hússins kom til dyra. Hún hringdi einnig dyrabjöllum annarra húsa á svæðinu en ekkert hefur spurst til hennar síðan.

Ólarnar sem konan bar um úlnliðinn þykja mögulega benda til þess að hún hafi verið bundin niður. Þá var hún aðeins klædd í stuttermabol og var berfætt. Lögregla segir konuna þó ekki samræmast lýsingum á konum sem hafa verið skráðar týndar Bandaríkjunum.

Lögregla í Montgomery-sýslu deildi myndbandinu á Facebook-síðu sinni á sunnudag. Þar biðlaði lögregla til allra sem kynnu að hafa upplýsingar um konuna að hafa samband við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×