Erlent

Harka færist í hörpudisksveiðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bátar franskra og enskra sjómanna skella hér saman á Ermasundi.
Bátar franskra og enskra sjómanna skella hér saman á Ermasundi. Skjáskot
Franskir sjómenn eru bornir þungum sökum af enskum starfsbræðrum þeirra á Ermasundi. Þeir frönsku eru sagðir hafa hreytt fúkyrðum í enska sjómenn og grýtt þá með steinum og jafnvel reyksprengjum þegar fley þeirra mætust á dögunum á hörpudisksmiðum undan ströndum Englands og Frakklands.

Átökin milli sjómannanna eru sögð hafa átt sér stað um 22 kílómetrum undan ströndum Normandí.

Bretar hafa leyfi til að veiða hörpudiska á þessum slóðum en nærvera þeirra hefur reitt Frakka til reiði sem saka þá um að ganga á skelfiskstofninn. Breskir sjómenn krefjast nú ríkisverndar á meðan Frakkar harma hve mikið hörpudisksstofninn hefur rýrnað.

Um 40 frönsk fiskveiðiskip komu saman á mánudag til að mótmæla því sem þeir kalla rányrkju Breta og endaði rifrildið með því að einhverjir bátanna skullu saman og nokkrir bátar skemmdust. Einungis 5 bresk skip voru á staðnum og flúðu Bretar svæðið að endingu. Hinir bresku sögðu við heimkomuna að þeir hefðu verið umkringdir og að grjóti og járni hefði verið kastað að þeim.

Hér að neðan má sjá myndband sem breska ríkisútvarpið tók saman um málið




Fleiri fréttir

Sjá meira


×