Fótbolti

Toure ekki á leið aftur í úrvalsdeildina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Toure lyftir Englandsmeistaratitlinum
Toure lyftir Englandsmeistaratitlinum Vísir/Getty
Yaya Toure er á leiðinni til Grikklands en ekki að ganga til liðs við félag í Lundúnum.

Vísir sagði frá því í morgun að umboðsmaður Yaya Toure hafi staðfest í gærkvöld að leikmaðurinn hafi staðist læknisskoðun í Lundúnum og væri við það að ganga frá samningum.

Miklar vangaveltur fóru af stað yfir næsta áfangastað Toure. Miðjumaðurinn yfirgaf Manchester City í sumar eftir átta ára veru þegar samningur hans rann út. Þar sem hann er samningslaus má hann ganga til liðs við úrvalsdeildarlið þótt félagsskiptaglugganum hafi verið lokað.

Umboðsmaðurinn Dimitry Seluk sagði að Toure væri ekki á leið til West Ham en fór ekkert nánar út í hvaða félag hann væri að ganga til liðs við. „Yaya er sigurvegari. Síðasta sæti er ekki fyrir hann,“ sagði Seluk á Twitter.

Enskir fjölmiðlar greina nú frá því að Toure sé ekki á leiðinni til bresku höfuðborgarinnar heldur til Grikklands þar sem hann gengur til liðs við sitt gamla félag Olympiakos.

Hann var þar tímabilið 2005-06 og vann tvennuna þar í landi með félaginu.

Olympiakos er 3-1 yfir í einvígi sínu við Burnley um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og leikur seinni leikinn þar annað kvöld. Toure mun ekki fá leikheimild í þann leik, sama þótt Toure nái að skrifa undir áður en flautað verður til leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×