Erlent

Frambjóðandi í Flórída sakaður um rasisma

Samúel Karl Ólason skrifar
Ron Desantis.
Ron Desantis. Vísir/AP
Ron DeSantis, frambjóðandi Repúblikanaflokksins til embættis ríkisstjóra í Flórída, hefur verið sakaður um rasisma gagnvart svörtum mótframbjóðanda sínum. DeSantis er sagður hafa ýjað að því að frambjóðandi Demókrataflokksins, Andrew Gillum, væri api þegar hann sagði að kjósendur ættu ekki að „monkey this up“, sem beinþýðist sem „apa þetta upp“ með því að kjósa Gillum og gera ríkið gjaldþrota. Ef Gillum yrði kosinn yrði hann fyrsti svarti ríkisstjóri Flórída.

Demókratar segja DeSantis hafa verið að tala undir rós til rasista með því að ýja að því að Gillum væri api. Formaður Demókrata í Flórída sagði ummælin vera ógeðsleg.

Talsmaður DeSantis segir fáránlegt að tengja ummælin við rasisma og sagði frambjóðandann hafa verið að tala um að stefnumál Gillum myndu gera stöðu stjórnmála í Flórída að skrípaleik.

Gillum var í viðtali á CNN í dag þar sem hann sagði íbúa Flórída vera að leita að ríkisstjóra sem gæti sameinað íbúa. Þeir væru ekki að leita að „kvenhatara, rasista eða ofstækismanni“. Forvöl voru haldin í Flórída í gær og kom sigur Gillum sérfræðingum á óvart. Gillum þykir framsækinn og er studdur af Bernie Sanders. DeSantis er aftur á móti dyggur stuðningsmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×