Erlent

Ellefu ára drengur sogaðist ofan í holræsi en bjargaðist

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikil rigning hefur leitt til flóða í Wisconsin.
Mikil rigning hefur leitt til flóða í Wisconsin. Vísir/AP
Ellefu ára dreng var bjargað á merkilegan hátt í gær eftir að hann hafði sogast niður í holræsakerfi í Wisconsin í Bandaríkjunum. Slökkviliðsmaður sá fingur drengsins þar sem hann hafði stungið honum í gegnum lítið gat á loki að holræsi sem slökkviliðsmaðurinn stóð á.

Þar hafði drengurinn fundið smá loft og hékk hann í stiga.

Drengurinn hafði verið að leika sér með vinum sínum í fráveituskurði þegar hann sogaðist ofan í holræsakerfið vegna mikilla rigninga. Þegar björgunarmenn bar að garði var þar maður sem hélt í drenginn og reyndi að koma í veg fyrir að hann myndi sogast niður. Hann missti þó takið og yfirmaður slökkviliðsins í bænum Harrison sagði styrk vatnsins hafa verið svo mikinn að maðurinn hefði mögulega geta sogast niður með drengnum.

Slökkviliðsmennirnir voru að reyna að átta sig á því hvert drengurinn gæti borist með vatninu þegar einn þeirra sá fingur hans.

Samkvæmt AP fréttaveitunni var drengurinn í góðu ástandi þegar hann var fluttur á sjúkrahús.

„Ég þakka bara guði fyrir að hann hafi verið á lífi og geta tórað svo lengi,“ sagði einn slökkviliðsmannanna við AP. „Þetta hefði geta farið á milljón mismunandi vegu en þessi eina leið virkaði honum í vil.“

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í hluta Wisconsin vegna flóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×