Pogba með fyrirliðabandið og mark í sigri United í opnunarleiknum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba skorar úr vítaspyrnunni.
Pogba skorar úr vítaspyrnunni. vísir/getty
Manchester United hafði betur gegn Leicester, 2-1, í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í kvöld. Paul Pogba og Luke Shaw skoruðu mörk United en Jamie Vardy minnkaði muninn fyrir Leicester.

Það var ekki liðin ein mínúta þegar heimamenn í United fengu vítaspyrnu er boltinn fór í hönd Daniel Amartey. Á punktinn stieg, fyrirliði kvöldsins, Paul Pogba og skoraði af miklu öryggi.

Markið sló ekki gestina út af laginu. Þeir gengu bara á lagið og ógnuðu marki heimamanna talsvert og þurfti David De Gea í tvígang að taka á honum stóra sínum. Inn vildi boltinn ekki og United leiddi í hálfleik, 1-0.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum en varnarleikur United hélt mun betur en í fyrri hálfleik þar sem Darmian og Eric Bailly voru í vandræðum með sprækan vinstri væng Leicester.

Hægt og rólega náðu leikmenn United betri tökum á leiknum og varamaðurinn Romelu Lukaku fékk dauðafæri er rúmar tíu mínútur voru eftir en Kasper Schmeichel varði meiri háttar vel frá honum.

Annað mark United kom úr óvæntri átt en það skoraði Luke Shaw. Eftir laglega sendingu frá Mata var heppnin með Shaw sem lagði boltann í fjærhornið. Þetta var fyrsta mark Shaw í ensku úrvalsdeildinni.

Gestirnir voru ekki hættir. Stórhættuleg fyrirgjöf Ricardo Pereira fór milli varnar og markvarðar United, í stöngina og þaðan út í teiginn þar sem Jamie Vardy fékk boltann í sig og inn. Smá heppni en varnarmenn og De Gea eilítið sofandi.

Mark Vardy kom á 92. mínútu og tíminn var því naumur fyrir gestina að jafna metin. Skalli Kasper Schmeichel eftir hornspyrnu í uppbótartíma fór framhjá og United fagnaði sigri í fyrsta leik tímabilsins.

Þungu fargi líklega létt af mörgum innan United en mikið hefur gengið á undir lok félagsskiptagluggans.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira