Fótbolti

Coutinho orðinn portúgalskur ríkisborgari

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Coutinho mun spila með treyjunúmerið 7 næsta vetur
Coutinho mun spila með treyjunúmerið 7 næsta vetur mynd/barcelona
Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho hefur fengið portúgalskan ríkisborgararétt og róar þar með áhyggjur Barcelona af fjölda erlendra leikmanna í leikmannahópi þeirra.

Spænska deildin er með reglur um fjölda erlendra leikmanna og má hvert lið aðeins hafa fimm leikmenn sem ekki koma frá löndum innan Evrópusambandsins. Aðeins þrír erlendir leikmenn mega vera í leikmannahópnum fyrir hvern leik.

Barcelona keypti þrjá nýja leikmenn í sumar; Arthur Melo, Malcom og Arturo Vidal. Allir þrír koma utan Evrópusambandsins. Það gerir Marlon Santos einnig sem og Coutinho.

Coutinho mun hins vegar ekki telja sem erlendur leikmaður því hann er kominn með portúgalskan ríkisborgararétt. Eiginkona Coutinho, Aine Coutinho, er portúgölsk og hafa þau verið gift nógu lengi til þess að Coutinho gat sótt um ríkisborgararétt, sem hann hefur nú fengið.

Barcelona hefur áður gert svipaða hluti til þess að tryggja það að mega spila leikmönnum sínum, Úrúgvæinn Luis Suarez er með ítalskan ríkisborgararétt í gegnum eiginkonu sína Sofia Balbi.

Barcelona mætir Sevilla í Ofurbikarnum í Marokkó á sunnudag. Barcelona er bæði Spánar- og bikarmeistari en Sevilla fékk silfrið í bikarnum og mætir því Barcelona í leiknum sem markar upphaf tímabilsins á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×