Innlent

Fréttir Stöðvar 2 í beinni útsendingu

Staðgöngumæðrunarfyrirtæki ætlar að bjóða Íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun frá og með haustinu. Staðgöngumæðrun telst ólögleg á Íslandi en forsvarsmaður fyrirtækisins fullyrðir að þjónustan stangist ekki á við íslenska löggjöf. Rætt verður við Mikkel Raahede, sem er staddur hér á landi, til að kynna starfsemina í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 klukkan 18:30.

Einnig verður fjallað um laxeldisfyrirtækið Arnarlax en markaðsverðmæti Salmar, eins stærsta eiganda fyrirtækisins, hefur tvöfaldast á sex mánuðum. En þrátt fyrir fjárhagslegan styrk eigenda íslenskra laxeldisfyrirtækja munu skattgreiðendur niðurgreiða starfsemi þeirra að hluta á næstu árum með framlögum ríkisins í umhverfissjóð sjókvíaeldis.

Við ræðum einnig við Dalvin Smára, nemanda í Menntaskólanum við Sund, í fréttatímanum. Dalvin Smári er í kynleiðréttingarferli og fær ekki að heita nýja nafninu sínu í gögnum skólans þrátt fyrir að biðja um það ítrekað. Í skólanum heitir hann gamla kvennafninu sínu og hefur það haft mikil áhrif á hann og félagslíf hans.

Við fylgjumst einnig áfram með máli manns sem var útskrifaður af geðdeild Landspítalans þrátt fyrir kröftug mótmæli fjölskyldunnar, við fáum að heyra nýjar tillögur velferðarráðs Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra en nýtt neyðarskýli er til dæmis í burðarliðnum og við hittum þátttakendur gleðigöngunnar sem lögðu lokahönd á vagna sína í dag.

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 í opinni dagskrá og í beinni útsendingu á Stöð2, Bylgjunni og á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×