Erlent

Flugvélarþjófurinn talinn af í brotlendingunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Paul Pastor, lögreglustjóri í Pierce-sýslu, stýrir aðgerðum eftir að flugvélin brotlenti í gærkvöldi.
Paul Pastor, lögreglustjóri í Pierce-sýslu, stýrir aðgerðum eftir að flugvélin brotlenti í gærkvöldi. Vísir/AP
Lögreglan í Pierce-sýslu í Washington-ríki í Bandaríkjunum þar sem flugvirki stal flugvél telur að maðurinn hafi farist þegar flugvélin brotlenti á eyju í Puget-sundi í gærkvöldi. Maðurinn er talinn hafa verið í sjálfsvígshugleiðingum.

Reuters-fréttastofan segir að lögreglan rannsaki nú hvað manninum, sem var 29 ára gamall, hafi gengið til með því að stela mannlausri farþegaflugvél Horizon Air á Tacoma-alþjóðaflugvellinum nærri Seattle.

Maðurinn hóf vélina á loft upp úr klukkan átta í gærkvöldi að staðartíma. Flaug hann háskalega yfir Seattle en brotlenti síðan á Ketron-eyju í Puget-sundi um klukkustund síðar.

Lögreglan telur að veltur og dýfur sem maðurinn reyndi að gera á flugvélinni hafi leitt til þess að hann brotlenti henni að lokum. Hann hafi líklega farist.

Ekki liggur fyrir hvernig manninum tókst að koma vélinni út á flugbraut og taka á loft án leyfis.

Flugvélin var af gerðinni Bombardier Q400. Tvær F15-orrustuþotur voru senda til móts við vélina sem fylgdu henni eftir þar til hún brotlenti.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá myndband vitnis af flugvélinni á lofti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×