Erlent

Myndband af lögregluþjóni ganga í skrokk á manni vekur reiði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hér má sjá skjáskot úr umræddu myndbandi.
Hér má sjá skjáskot úr umræddu myndbandi. Skjáskot/Twitter
Lögreglumanni hefur verið sagt tímabundið upp störfum í bandarísku borginni Baltimore eftir að myndband, sem sýnir hann ganga í skrokk á karlmanni, var birt á netinu.

Aktívistinn DeRay Mckesson birti myndbandið á Twitter-reikningi sínum í dag og gagnrýndi lögreglu harðlega. Í myndbandinu sést lögreglumaðurinn kýla karlmann ítrekað í andlit og bol. Að lokum tæklar lögreguþjónninn manninn og heldur honum þétt upp við gangstéttina, þar sem virðist blæða úr höfði þess síðarnefnda.

Starfandi lögreglustjóri í Baltimore sagði í yfirlýsingu vegna málsins í dag að lögreglumanninum hefði verið vikið úr starfi á meðan rannsókn á atvikinu stendur yfir.

„Mig hryllir við myndbandinu,“ sagði einnig í yfirlýsingu. Þá óskar lögregla eftir vitnum að atvikinu.

Lögregluofbeldi í Bandaríkjunum hefur verið töluvert milli tannanna á fólki undanfarin misseri. Hefur ofbeldið verið sett í samhengi við kynþáttaspennu í landinu en einkum hefur verið fjallað um atvik þar sem hvítir lögreglumenn beita svart fólk ofbeldi. Í tilvikinu sem hér um ræðir eru báðir aðilar þó svartir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×