Erlent

Parker-geimfarinu skotið á loft

Kjartan Kjartansson skrifar
Delta IV -eldflaugin þegar hún hóf sig á loft frá skotpallinum á Canaveral-höfða í morgun.
Delta IV -eldflaugin þegar hún hóf sig á loft frá skotpallinum á Canaveral-höfða í morgun. Vísir/AP

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA skaut Parker-sólarkannanum á loft nú í morgun eftir að fresta þurfti geimskoti í gær vegna tæknilegra örðugleika. Geimfarið er nú á leið til sólarinnar þar sem það mun verja næstu sjö árunum.

Parker var skotið á loft með Delta IV-eldflaug frá skotpalli á Canaveral-höfða á Flórída klukkan 7:31 í morgun. Allt virðist hafa gengið að óskum.

Markmiðið með Parker-leiðangrinum er að rannsaka sólina okkar, kórónu hennar og sólvindinn svonefnda. Parker mun eyða næstu sjö árum á braut um sólina og hætta sér nær henni en nokkuð geimfar hefur gert áður.

Vísindamenn vonast til þess að gögnin sem Parker mun safna geti hjálpað þeim að spá fyrir um svonefnda sólstorma þegar hlaðnar agnir þeytast frá sólinni út í sólkerfið. Þær geta ekki aðeins raskað fjarskipta- og rafeindakerfum á jörðinni heldur geta þær einnig haft áhrif á geimfara í mönnuðum leiðöngrum.

Fréttin var uppfærð eftir geimskotið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×