Innlent

Franskir ferðamenn ollu varanlegum skemmdum með utanvegaakstri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ferðamennirnir eru væntanlegir í skýrslutöku til lögreglunnar á Egilsstöðum á morgun.
Ferðamennirnir eru væntanlegir í skýrslutöku til lögreglunnar á Egilsstöðum á morgun. vísir/gva
Sex franskir ferðamenn á þremur bílum hafa valdið varanlegum skemmdum vegna utanvegaaksturs við Þríhyrningsá á Austurlandi. Eiga ferðamennirnir yfir höfði sér allt að 500 þúsund króna sekt fyrir athæfið. RÚV greindi fyrst frá málinu í kvöld.

Að sögn Hjalta Bergmars Axelsson, varðstjóra hjá lögreglunni á Austurlandi, tilkynnti þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði um málið um miðjan dag í gær. Ferðamennirnir sex höfðu verið á ferð um veg F910, einnig þekktur sem Austurleið, sem liggur frá Möðrudal og inn á hálendið.

Þegar ferðamennirnir komu að Þríhyrningsá sat annar bíll fastur í ánni.

„Eftir að hafa beðið í talsverða stund við vaðið, þar sem þeir komust ekki yfir, tóku þeir þá óskynsamlegu ákvörðun að keyra út fyrir veginn og lengra frá þar sem þeir komust yfir ána,“ segir Hjalti í samtali við Vísi.

„Þeir óku einhverja 200 metra eða svo, yfir mela og gróið land, og að hluta til eru þetta för og skemmdir sem eru óafturkræfar.“

Koma til skýrslutöku á morgun

Lögreglumenn við hálendiseftirlit úr umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra vitjuðu ferðamannanna og öfluðu gagna, sem síðan voru send til lögreglunnar á Austurlandi.

Hjalti segir ferðamennina væntanlega til skýrslutöku hjá lögreglu á morgun. Þar mun málum að öllum líkindum lykta með sektargreiðslum, frá 50 til 500 þúsund krónum á mann. Hann áætlar þó ferðamennirnir hljóti lægri sekt en franskir ferðamenn á Suðurlandi greiddu fyrir sambærilegt brot í júlí. Hlutu þeir 200 þúsund króna sekt hvor fyrir utanvegaakstur við Kerlingafjöll.

Aðspurður segir Hjalti að ekki hafi sérstaklega mörg utanvegaakstursbrot komið inn á borð lögreglu á Austurlandi í sumar. Hann bendir þó á að utanvegaakstur sé mun algengari en tilkynningar til lögreglu gefi til kynna. Þá er í flestum tilvikum um að ræða erlenda ferðamenn. „Þó að það fríi Íslendinga ekki allri ábyrgð samt,“ segir Hjalti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×