Innlent

Segir lög um réttarstöðu hinsegin fólks úrelt

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
María Helga Guðmundsdóttir, formaður samtakanna 78
María Helga Guðmundsdóttir, formaður samtakanna 78 Vísir
Lög sem ná utan um réttarstöðu hinsegin fólks eru orðin úrelt að mati formanns samtakanna 78.

Hún segir frumvarp sem leggja á fyrir í vetur vera mikilvægt skref í réttindabaráttunni og færa Ísland nær nágrannalöndunum þar sem þróunin hafi farið fram á við meðan íslenskt regluverk hafi staðið í stað.

Forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu í lok Gleðigöngunnar í gær Ísland hafa dregist aftur úr í mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Hún segir frumvarp um kynrænt sjálfræði í vinnslu sem leggja á fyrir þingið í vetur.

María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna 78, sem komu að vinnslu frumvarpsins, gleðst yfir því að það sé komið svona langt í ferlinu því lögin í dag séu úrelt.

„Þegar lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunar vanda ganga í gegn árið 2012 er þegar búið að fella þessa skilgreiningu kynáttunarvandi, sem er í raun geðsjúkdómsgreining á því að vera trans, út úr alþjóðlegum greiningarstöðlum. Þá erum við komin skrefinu eftir á strax í byrjun,“ segir María. 

Samkvæmt ráðuneytinu snýst frumvarpið um rétt einstaklinga til að ákvarða kyn sitt sjálfir og tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Frumvarpið á líka að tryggja að staðið sé vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynvitund, kynhneigð, kyneinkennum og kyntjáningu.

„Í dag er staðan sú að til þess að fá breytingu á nafni og kynskráningu, ef þú ert trans, þá þarftu að gangast undir greiningu hjá transteymi Landspítalans á því sem er kallað kynáttunarvandi. Sem er skilgreiningin sem er úrelt, það segir okkur hversu þarfar þessar breytingar eru,“ segir hún. 

Hún bendir á að það sé jákvætt að það verði bundið í lög hvernig þessum málum sé háttað, það sé öllum til góða sem að þessu koma.

„Þetta er í raun fyrsta skipti sem einhverskonar lagaleg umgjörð verður utan um breytingar um kyneinkenni intersexfólks, það hefur í rauninni bara ekki verið til staðar í íslenskum lögum,“ bendir hún á.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×