Fótbolti

Iniesta kominn á blað í Japan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Andres Iniesta í leik með Vissel Kobe
Andres Iniesta í leik með Vissel Kobe vísir/getty
Andres Iniesta er af mörgum talinn besti miðvallarleikmaður á þessari öld. Segja má að hann hafi drottnað yfir evrópskum fótbolta með Barcelona og spænska landsliðinu undanfarin ár þar sem hann vann spænsku deildina níu sinnum, Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum með Börsungum auk þess að verða tvívegis Evrópumeistari og einu sinni Heimsmeistari með Spánverjum.

Í sumar hélt þessi 34 ára gamli Spánverji á framandi slóðir og samdi við Vissel Kobe í Japan. Iniesta er byrjaður að láta að sér kveða með liðinu sem situr í fjórða sæti japönsku úrvalsdeildarinnar.

Um helgina skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir félagið og það var í glæsilegri kantinum eins og sjá má neðst í fréttinni.

Iniesta fékk þá boltann frá hinni stórstjörnu liðsins, Þjóðverjanum Lukas Podolski, lék sér að einum varnarmanni áður en hann labbaði framhjá markverðinum og renndi boltanum í netið.

Þetta var fyrsta mark leiksins sem lauk með 2-1 sigri Iniesta og félaga. Þetta var hans annar leikur í byrjunarliði hjá félaginu og hefur liðið unnið báða leikina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×