Íslenski boltinn

Versta markatala FH-liðsins í sextán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingurinn Hjörtur Logi Valgarðsson í leiknum á móti ÍBV í gær.
FH-ingurinn Hjörtur Logi Valgarðsson í leiknum á móti ÍBV í gær. Vísir/Bára
FH-ingar eru ekki lengur með hagstæða markatölu í Pepsi-deildinni eftir 2-0 tap á móti ÍBV í gær. Það þarf að fara alla leið aftur til ársins 2002 til að finna slakari markatölu hjá FH-liðinu þegar svona langt er liðið á Íslandsmótið.

Markatala FH er nú 24-24, sex mörkum verri en í fyrra sem jafnframt var versta markatala liðsins á þessum tímapunkti í sjö ár.

Það þarf síðan að fara allt aftur til sumarsins 2002 til að finna verri markatölu FH eftir sextán leiki. Sigurður Jónsson var þá þjálfari FH og markatalan eftir fyrstu sextán leikina var eitt mark í mínus (23-24).

Fyrir sextán árum hafði FH ekki unnið neinn titil í meistaraflokki karla en FH hefur unnið átta Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla frá árinu 2004.

Í fyrra var FH í fyrsta sinn í fimmtán ár ekki meðal tveggja efstu liðanna og í kjölfarið urðu þjálfaraskipti í Krikanum. Ólafur Kristjánsson tók þá við liðinu af Heimi Guðjónssyni.

Ólafur gerði miklar breytingar á leikmannahópi FH en hefur ekki tekist að snúa við þróun síðustu ár.

Niðursveiflu FH á undanförnum árum má kannski sjá í þróun markatölu liðsins eftir sex leiki.

Markatala FH eftir sextán umferðir er nefnilega að lækka sjötta árið í röð. Hún var +21 mörk sumarið 2012 en hefur lækkað á hverju ári síðan.



Markatala FH eftir 16 leiki

- 12 liða deild -

2018: 0 (24-24)

2017: +6 (24-18)

2016: +13 (24-11)

2015: +18 (37-19)

2014: +19 (30-11)

2013: +20 (34-14)

2012: +21 (38-17)

2011: +14 (33-19)

2010: +5 (29-24)

2009: +29 (45-16)

2008: +19 (35-16)

- 10 liða deild -

2007: +16 (39-23)

2006: +13 (26-13)

2005: +39 (47-8)

2004: +13 (27-14)

2003: +2 (26-24)

2002: -1 (23-24)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×