Innlent

Stuðningsmenn Barcelona SC fórust í bílslysi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talið er að ökumaður rútunnar hafi reynt framúrakstur þegar slysið varð.
Talið er að ökumaður rútunnar hafi reynt framúrakstur þegar slysið varð. ECU911
Hið minnsta tólf stuðningsmenn ekvadorska knattspyrnufélagsins Barcelona SC eru látnir eftir bílveltu í gærkvöld. Þar að auki eru um 30 slasaðir. Stuðningsmennirnir höfðu ferðast með rútu eftir leik félagsins gegn Deportivo Cuenca, sem leikur heimaleiki sína í borginni Cuenca.

Tildrög slyssins eru óljós á þessari stundu. Samgönguyfirvöld landsins segja þó að ekkert hafi verið að rútunni og að hún hafi flogið í gegnum ástandsskoðun í febrúar síðastliðnum. Vitni greina frá því í samtali við þarlenda miðla að ökumaður rútunnar hafi misst stjórn á bílnum þegar hann reyndi framúrakstur á miklum hraða. Opinberar tölur gefa til kynna að um sjö einstaklingar láti lífið daglega í Ekvador í umferðarslysum. Um 96% slysanna má rekja til mannlegra mistaka að sögn breska ríkisútvarpsins.

Barcelona SC er eitt vinsælasta knattspyrnuliðið í Ekvador og eru stuðningsmenn þess rómaðir fyrir kröftugan stuðning á áhorfendapöllunum. Stjórnarformaður liðsins segir að slysið sé mikið áfall og að komið verði upp kapellu í leikvangi Barcelona SC þar sem stuðningsmannanna verður minnst.

Knattspyrnusamband Ekvadors, auk fjölda félagsliða, hafa vottað Barcelona SC, stuðningsmönnum þess og aðstandendum hinna látnu, samúð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×