Enski boltinn

Allardyce kennir Emery um: „Heimskulegt að spila út úr vörninni“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Frumraun Emery í ensku úrvalsdeildinni gekk ekki eftir óskum
Frumraun Emery í ensku úrvalsdeildinni gekk ekki eftir óskum
Sam Allardyce kennir Unai Emery um tap Arsenal gegn Manchester City í gær. Gamalreyndi stjórinn segir nýja manninn í brúnni hjá Arsenal hafa verið með ranga leikaðferð.

Allardyce, sem stýrði Everton seinni hluta síðasta tímabils, ræddi stórleik gærdagsins á útvarpsstöðinni TalkSport í morgun.

„Þetta er stjóranum að kenna. Þetta er honum að kenna,“ sagði Allardyce. Arsenal tapaði leiknum 2-0 og ógnaði marki City lítið sem ekkert í leiknum.

„Ekki láta liðið þitt spila út frá markmanni á móti Manchester City. Hvað gerir Manchester City? Þeir pressa og pressa. Afhveerju ertu að reyna að spila út frá markmanni þegar þeir pressa?“

Allardyce er oft sagður vera af svokölluðum „gamla skóla“ og spilar mjög enskan leikstíl. Hann er ekki hrifinn af því að lið séu farin að spila of mikið út úr vörninni.

„Við erum heltekin af þessari heimskulegu hugmynd að spila út frá vörninni, setja miðverðina á sitt hvort hornið á vítateignum og spila þaðan. Það er algjör vitleysa að spila alltaf svona.“

Honum var bent á það að leikstíll Manchester City sé svipaður, þeir spili oft út frá markmanni. „Þegar þú ert bestur þá getur þú gert þetta,“ svaraði Allardyce þá.


Tengdar fréttir

City byrjaði titilvörnina á sigri

Englandsmeistarar Manchester City byrjuðu titilvörn sína á sigri á Arsenal í fyrsta stórleik tímabilsins á Emirates vellinum í Lundúnum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×