Enski boltinn

Ian Rush skoraði tvö þegar Liverpool komst síðast á toppinn eftir 1. umferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ian Rush var fyrirliði Liverpool þegar liðið byrjaði tímabilið síðast í efsta sæti. Hér fagnar hann marki það tímabil.
Ian Rush var fyrirliði Liverpool þegar liðið byrjaði tímabilið síðast í efsta sæti. Hér fagnar hann marki það tímabil. Vísir/Getty
Liverpool er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 4-0 sigur á West Ham í gær. Liverpool vann stærsta sigur helgarinnar.

Það þarf að fara allt til haustsins 1994 til að finna hvenær Liverpool var síðast í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir fyrstu umferð.

Liverpool sat þá í efsta sætinu eftir 6-1 sigur á Crystal Palace í fyrstu umferðinni en leikurinn fór fram á Selhurst Park í London.







Danski miðjumaðurinn Jan Mölby skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 12. mínútu og tveimur mínútum síðar var Steve McManaman búinn að kom Liverpool í 2-0.

Robbie Fowler skoraði þriðja markið á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Steve McManaman bætti við sínu öðru marki í seinni hálfleik inn á milli marka frá fyrirliðanum Ian Rush.

Liverpool vann þrjá fyrstu leiki sína þetta tímabil (3-0 á móti Arsenal og 2-0 á móti Southampton) en gaf svo eftir. Fyrsta tapið kom á móti Manchester United 17. september og fimm leiki í röð án sigurs í nóvember og desember enduðu svo gott sem allar titilvonir liðsins.

Liverpool-liðið endaði í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar á eftir Blackburn Rovers (enskur meistari), Manchester United og Nottingham Forest

Liverpool vann hinsvegar titil þetta tímabil því liðið vann 2-1 sigur á Bolton Wanderers á gamla Wembley í úrslitaleik enska deildabikarsins. Steve McManaman skoraði bæði mörkin í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×