Innlent

Vagnstjórinn mun ekki aka undir merkjum Strætó framar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Strætisvagnstjóri, sem sást aka glannalega fram úr bifreið, mun ekki aka undir merkjum Strætó héðan í frá. Upplýsingafulltrúi Strætó segir málið grafalvarlegt og þakkar fyrir að ekki fór verr.

Vigfús Markússon var á leið austur þegar strætisvagn á leið 51 sást aka fram úr nokkrum bílum. Vagninn kom á fleygiferð inn á gagnstæða akrein en litlu mátti muna að hann hefði lent framan á bíl Vigfúsar.

Upplýsingafulltrúi Strætó lítur málið grafalvarlegum augum og segir það bæði brjóta í bága við umferðarlög og gegn öllum gildum Strætó um ábyrgan akstur. „Þetta er náttúrulega grafalvarlegt mál og við fordæmum svona glannaakstur eins og talað var um í dag. Þetta er eitthvað sem við viljum ekki sjá í umferðinni. Sérstaklega ekki þegar við erum að flytja almenning í okkar starfi,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.

Strætóinn sem um ræðir var á leið en þennan dag var Hellisheiðin lokuð og því fór vagninn um Þrengslin. Þrettán farþegar voru um borð og þakkar Guðmundur fyrir að ekki fór verr.

„Við erum búin að vera í samskiptum við verktakann sem ekur leið 51. Það eru Hópbílar og við komumst að þeirri niðurstöðu að þessu tiltekni bílstjóri mun ekki aka undir merkjum Strætó héðan í frá,“ segir Guðmundur.

Undantekning

Guðmundur segir að um undantekningu sé að ræða og því hvetur hann fólk til að halda áfram að taka Strætó. „Við förum hundruð ferða á hverjum einasta degi og eru Strætó og Hópbílar almennt séð mjög öruggir valkostir. Ég hvet fólk til að halda áfram að taka strætó því ef svona mál koma upp þá tökum við á þeim og við tökum hratt á þeim,“ segir Guðmundur.

Ekki vitað hvort bílstjórinn muni starfa áfram hjá Hópbílum, en framkvæmdastjóri Hópbíla neitaði að tjá sig um málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×