Erlent

Fyrirsæta dæmd fyrir morð á starfsbróður

Atli Ísleifsson skrifar
George Koh var handtekinn í janúar síðastliðinn.
George Koh var handtekinn í janúar síðastliðinn. Vísir/AP
Dómstóll í Bretlandi hefur dæmt fyrirsætuna George Koh seka um morð á starfsbróður sínum Harry Uzoka í London fyrr á þessu ári. Til átaka kom milli mannanna eftir deilur þeirra á Instagram sem snerust um konu.

Guardian  greinir frá því að hinn 24 ára Koh hafi ásamt tveimur félögum sínum farið á fund Uzoka, og stungið hann í hjartað eftir að þeir höfðu att orðaskipti í um tvær mínútur.

Uzoka, sem var 25 ára og naut meiri velgengni en Koh í bransanum, lést á gangstéttinni fyrir utan heimili sitt í Sherpherd‘s Bush í vesturhluta London þann 11. janúar síðastliðinn.

Koh og Uzoka höfðu sammælst um það á Instagram að hittast umrætt kvöld til að leysa deilur sínar. Þeir mættu báðir vopnaðir, Koh vopnaður tveimur hnífum en Uzoka lóðastöng.

Segir í dómnum að félagar Koh hafi þrýst Uzoka upp að bíl og haldið honum þar á meðan Koh stakk hann með hníf. Félagar Koh voru einnig dæmdir í málinu, annar fyrir morð en hinn manndráp.

Með þráhyggju

Saksóknarinn í málinu sagði fyrir dómi að Koh hafi verið með þráhyggju gagnvart Uzoka, en báðir störfuðu í sama geira, þóttu svipa til hvors annars, en að Uzoka hafi notið meiri velgengni en Koh.

Sagði saksóknarinn að Uzoka, sem hafði starfað fyrir GQ, Mercedes og Zara, hafi þótt Koh pirrandi en ekkert meira en það. Hann hafi þó orðið reiður Koh eftir að sá hafi haldið því fram að hann hafi sofið hjá kærustu Uzoka.

Dómari mun úrskurða um refsingu yfir mönnunum í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×