Fótbolti

Albert búinn að skrifa undir hjá AZ Alkmaar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Albert skrifaði undir samning til ársins 2022
Albert skrifaði undir samning til ársins 2022 mynd/az
Albert Guðmundsson er genginn til liðs við hollenska félagið AZ Alkmaar. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið.

Hinn 21 árs gamli Albert hefur verið á mála hjá hollenska stórliðinu PSV síðustu ár. Hann hefur farið á kostum með varaliði PSV en lítið fengið að spreyta sig hjá aðalliðinu.





„Ég er mjög ánægður með að hafa skrifað undir og get ekki beðið eftir því að komast út á völlinn,“ sagði Albert við heimasíðu félagsins.

„Ég valdi að koma til AZ því þeir hafa fylgst með mér í langan tíma og spila sóknarbolta. Það hafa margir Íslendingar komið hingað og gengið vel, ég ræddi við nokkra þeirra og þeir voru allir mjög jákvæðir í garð félagsins.“

Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson eru á meðal þeirra Íslendinga sem hafa spilað með AZ

Yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu sagði Albert vera „skapandi, með góða tækni og hraða. Leikmaður sem hefur sannað að hann geti spilað í mismunandi stöðum á vellinum.“ Hann sagði jafnframt að Albert fengi að spila mikið af leikjum fyrir félagið.

Albert var í HM hópi Íslands í Rússlandi og kom inn á í seinni hálfleik í lokaleiknum gegn Króatíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×