Íslenski boltinn

Davíð Þór: Áttum okkur á mikilvægi leiksins á morgun

Anton Ingi Leifsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, segir að eina von FH um titil í ár sé bikarmeistaratitill og þeir muni gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að komast í bikarúrslitin.

FH og Stjarnan mætast í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á morgun en leikið verður á Samsung-vellinum í Garðabæ. Flautað til leiks klukkan 19.15.

„Það er nokkuð mikið til í því. Staða okkar í deildinni er að það verður erfitt að ná einu af þremur efstu sætunum eins og þetta lítur út núna. Að sjálfsögðu áttum við okkur á mikilvægi leiksins á morgun,” sagði Davíð við Guðjón Guðmundsson.

Gengi FH í deildinni í sumar hefur verið vonbrigði. Þeir eru einungis með sex sigra og sitja í fimmta sæti deildarinnar, langt á eftir efstu liðunum.

„Það er ekkert hægt að tala í kringum það. Þetta eru búið að vera vonbrigði. Við höfum ekki náð í þau stig sem við ætluðum að ná í og erum búnir að hellast úr lestinni í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.”

„Okkar von um titil í ár er bikarmeistaratitillinn. Við þurfum að reyna að halda því lifandi með því að koma okkur í þennan úrslitaleik á morgun,” en er lífæð félagsins í gegnum Evrópukeppnina?

„Undanfarin fimmtán ár höfum við verið í Evrópukeppni og hvort sem það er lífæð félagsins eða ekki. Þetta eru auðvitað tekjur sem félagið fær. Þú ferð erlendis og spilar oft gegn stórum og flottum félögum og það kryddar upp á tímabilið.”

Allt innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×