Erlent

Tyrkir sleppa óvænt grískum hermönnum

Atli Ísleifsson skrifar
Gríska hermanninum Aggelos Mitretodis er fylgt úr fangelsi í Edirne í Tyrklandi fyrr í dag.
Gríska hermanninum Aggelos Mitretodis er fylgt úr fangelsi í Edirne í Tyrklandi fyrr í dag. Vísir/AP
Dómstóll í Tyrklandi fyrirskipaði í dag óvænt að tveimur grískum hermönnum sem hafa verið í haldi tyrkneskra yfirvalda síðan í mars, skyldi sleppt. Hermennirnir voru grunaðir um njósnir eftir að hafa farið ólöglega yfir landamæri ríkjanna. Málið hefur aukið á spennu milli ríkjanna síðustu mánuðina.

Tyrkneska stöðin Anadolu greinir frá því að þrátt fyrir að mönnunum hafi verið sleppt þá komi þeir til með að verða dregnir fyrir rétt. Ekki er tekið fram hvort að þeir fái að halda aftur til Grikklands áður en réttað er í máli þeirra.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, fagnaði í dag því að mönnunum hafi verið sleppt og að það komi til með að bæta samskipti NATO-ríkjanna tveggja, en spenna hefur ríkt í samskiptum Grikklands og Tyrklands um margra ára skeið.

Evrópusambandið hefur stutt við bakið á grískum stjórnvöldum í málinu og þrýst á Tyrklandsstjórn að sleppa hermönnunum sem segjast hafa villst yfir landamærin í þoku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×