Íslenski boltinn

FH getur í fyrsta sinn komist í bikarúrslitin tvö ár í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingar fagna bikarmeistaratitlinum 2010.
FH-ingar fagna bikarmeistaratitlinum 2010. vísir/daníel
FH-ingar hafa verið duglegir að bæta við sögu félagsins undanfarin ár með hverjum titlinum á fætur öðrum og í kvöld geta þeir afrekað það sem engu öðru FH-liði hefur tekist áður.

FH-liðið heimsækir þá Stjörnuna í Garðabæ í undanúrslitum Mjólkursbikar karla í fótbolta. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

FH hefur aldrei áður komist í bikarúrslitaleikinn tvö ár í röð.

FH-ingar eru að flestra mati að reyna að bjarga tímabilinu með góðum árangri í bikarnum en Hafnarfjarðarliðið á ekki lengur raunhæfa möguleika á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

FH-liðið komst í bikarúrslitaleikinn í fyrra en tapaði þá 1-0 á móti ÍBV þar sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði eina mark leiksins.

FH er þriðja árið í röð í undanúrslitum bikarsins en tapaði fyrir ÍBV í þessum leik fyrir tveimur árum.

FH-liðið hefur sex sinnum áður komist í bikaúrslitaleikinn en aldrei náð því að komast þangað tvö ár í röð.

Mótherjar þeirra í kvöld úr Stjörunni komust tvö ár í röð í bikarúrslitaleikinn 2012 og 2013 en töpuðu báðum leikjunum. Það eru jafnframt einu bikarúrslitaleikir Garðarbæjarliðsins.



Bikarúrslitaleikir FH og árið eftir:

FH komst í bikarúrslitaleikinn 1972 (tap á móti ÍBV) en sumarið 1973 tapaði liðið á móti Keflavík í 8 liða úrslitunum.

FH komst í bikarúrslitaleikinn 1991 (tap á móti Val) en sumarið 1992 tapaði liðið á móti Val í 8 liða úrslitunum.

FH komst í bikarúrslitaleikinn 2003 (tap á móti ÍA) en sumarið 2004 tapaði liðið á móti KA í undanúrslitunum.

FH komst í bikarúrslitaleikinn 2007 (sigur á Fjölni) en sumarið 2008 tapaði liðið á móti Keflavík í 16 liða úrslitunum.

FH komst í bikarúrslitaleikinn 2010 (sigur á KR) en sumarið 2011 tapaði liðið á móti KR í 16 liða úrslitunum.

FH komst í bikarúrslitaleikinn 2017 (tap á móti ÍBV) og getur endurtekið leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×