Enski boltinn

Vildu ekki bróður Pogba af því hann var of feitur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Pogba fagnar hér heimsmeistaratitli yngri bróður síns ásamt heimsmeistaranum Paul Pogba og tvíburabróður sínum Florentin.
Mathias Pogba fagnar hér heimsmeistaratitli yngri bróður síns ásamt heimsmeistaranum Paul Pogba og tvíburabróður sínum Florentin. Vísir/Getty
Mathias Pogba, eldri bróðir Paul Pogba, er enn að leita sér að nýju félagi og það gengur ekki nógu vel.

Mathias Pogba var til reynslu hjá þýska c-deildarliðinu KFC Uerdingen en fékk harðan dóm eftir að þeim tíma lauk.

KFC Uerdingen sagði bara hlutina eins og þeir eru: Mathias Pogba hefur margt til brunns að bera sem fótboltamaður en hann er bara of feitur.





„Hann hefur flotta skrokk fyrir framherja og er líka með hæðina með sér. Hann er bara með of mörg kíló í kringum mjaðmirnar,“ hefur þýska blaðið Bild eftir Stefan Krämer, þjálfara Uerdingen-liðsins.

Mathias Pogba spilaði síðast með Sparta Rotterdam í Hollandi en hann hafði áður verið í Skotlandi, á Ítalíu, í Englandi og í Frakklandi. Mathias Pogba hefur því flakkað mikið á milli liða á sínum ferli en lengst spilaði hann með enska félaginu Crewe Alexandra.

Tvíburabróðir Mathiasar Pogba heitir Florentin og spilar með tyrkneska félaginu Gençlerbirliği S.K. Frægasti fótboltamaður fjölskyldunnar er aftur á móti Paul Pogba hjá Manchester United.





Paul Pogba varð heimsmeistari með Frökkum í sumar og skoraði í 2-0 sigri Manchester United á Leicester City í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Mathias og Florentin Pogba spila báðir fyrir landslið Gíneu og eru þar liðsfélagar Naby Keïta hjá Liverpool. Pogba fæddist aftur á móti í Frakklandi, komst strax í sextán ára landslið Frakka og hefur spilað fyrir Frakkland síðan.

Mathias og Florentin Pogba eru fæddir 19. ágúst 1990 í  Gíneu og eru þremur árum eldri en Paul Pogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×