Erlent

Nýja-Sjáland bannar útlendingum að kaupa fasteignir

Kjartan Kjartansson skrifar
Í Auckland hefur fasteignaverð næstum því tvöfaldast síðustu tíu árin.
Í Auckland hefur fasteignaverð næstum því tvöfaldast síðustu tíu árin. Vísir/Getty
Flestir útlendingar fá ekki að kaupa íbúðarhús á Nýja-Sjálandi samkvæmt lögum sem samþykkt voru á þingi þar í dag. Markmið laganna er gera íbúðir viðráðanlegri í verði en fjöldi Nýsjálendinga hefur ekki efni á að kaupa fasteignir.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að Ástralar og Singapúrar verði undanþegnir lögunum vegna fríverslunarsamninga. Lögin ná til útlendinga sem hafa ekki dvalarleyfi á Nýja-Sjálandi. Útlendingar geta þó fjárfest takmarkað í nýjum íbúðum í stærri fasteignaverkefnum.

Lágir vextir, skortur á framboði og innflutningur fólks hefur valdið því að fasteignaverð hefur hækkað um 60% síðasta áratuginn. Í Auckland, stærstu borg landsins, hefur verðið nærri því tvöfaldast. Kínverjar eru stórtækastir útlendinga á fasteignamarkaði á Nýja-Sjálandi.

David Parker, viðskiptaráðherra Nýja-Sjálands, segir að heimamenn eigi ekki að þurfa að þola það að ríkari útlendingar yfirbjóði þá.

Andstæðingar laganna segja þau hins vegar ónauðsynleg og að þau komi ekki til með að lækka fasteignaverð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×